Lífið

Hlýtur að vera pláss fyrir einn pönkara í presta­­­stétt

Pönk­hljóm­sveitin Austur­víg­stöðvarnar gaf út hina mjög svo um­deildu hljóm­plötu Út­varp Satan á sjó­manna­daginn. For­söngvarinn séra Davíð Þór Jóns­son segir að í hópi um 200 þjóð­kirkju­presta hljóti að vera pláss fyrir einn pönkara.

Séra Davíð Þór ásamt félögum í pönkbandinu Austurvígstöðvarnar, skriðu sem hann hratt af stað á meðan honum leiddist í fæðingaorlofi á Eskifirði.

Sextán pönklagaplatan Útvarp Satan var gerð aðgengileg á öllum helstu tónlistarveitum á netinu í gær, á sjómannadaginn. Forsöngvarinn séra Davíð Þór Jónsson segir þennan dag því útgáfudag plötunnar þótt hún sé ekki enn komin á geisladisk eða vínýl.

„Þessi bransi er nú bara orðinn þannig að tónlistarneyslan fer mest fram rafrænt þannig að geisladiska- og vínýlplötuframleiðsla er meira orðin sérþjónusta fyrir sérvitringa,“ segir Davíð Þór.

Hljómsveitin á von á að platan verði tilbúin á þessum föstu formum um miðjan mánuðinn og þá verðu henni dreift í valdar verslanir og send þeim sem keyptu hana í forsölu á Karolina Fund, þar sem hljómsveitin safnaði fyrir útgáfunni.

Sjá einnig: Pönkararnir hafa tryggt útgáfu Útvarp Satan

Óhætt er að segja að Útvarp Satan er þétt og mátulega hrá plata með beinskeyttum ádeilutextum. Metnaður pönkaranna að austan kann jafnvel að koma einhverjum á óvart. En Davíð Þór segir að þótt þau hafi gert þetta glottandi út í annað „þýðir það ekki að við séum ekki að vanda okkur.“

Ýtti við steini sem varð að skriðu

Austurvígstöðvarnar skipa auk Davíðs Þórs, Þórunn Gréta Sigurðardóttir, Díana Mjöll Sveinsdóttir, Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir, Jón Hafliði Sigurjónsson og Jón Knútur Ásmundsson.

Sjá einnig: Útvarp Satan verður „drullugóð“

Sveitin var stofnuð á Eskifirði árið 2016 sem andhóf við leiðindum prests í fæðingarorlofi og spillingu og fordómum í samfélaginu. „Ég var í fæðingarorlofi og fastur á Eskifirði. Það er Panamaskjala-skandall, Wintris og ég veit ekki hvað í fullum gangi og ég iðaði í skinninu að gera eitthvað. Og ég segi við konuna mína að mig langi að stofna pólitíska pönkhljómsveit.“

Þórunn Gréta Sigurðardóttir, eiginkona Davíðs Þórs og hljómborðsleikari Austurvígstöðvanna, tók vel í hugmyndina og var ekki lengi að smala saman tónlistarfólki og bandið fór að taka á sig mynd.

Sjá einnig: Sextán pönklög verða á plötunni Útvarp Satan

„Það kom mér svo skemmtilega á óvart að þegar bandið fór að spila þá var þetta bara allt of gott til þess að ég gæti spilað á gítar eins og mig hafði langað til að gera,“ segir Davíð.

„Þetta sumar er bandið að taka á sig mynd, efnisskráin að raðast saman og þetta varð miklu betri hljómsveit en til stóð í raun og veru. Mér líður svolítið eins og mér hafi leiðst og hafi stjakað við steini og er núna að horfa á skriðuna koma niður fjallshlíðina og hugsa með mér: úbbs, hvað hef ég gert?“

Plötuumslagið tók nokkrum breytingum á meðan gengið var frá plötunni og lítur svona út í endanlegri mynd.

Pönkið er „attitjúdd“

Davíð Þór segir að fyrir honum snúist pönkið um „attitjúdd“ og nóg er af slíku í beittum ádeilutextum sveitarinnar. Markmiðið er að ögra eða í það minnsta bregða upp „svipmyndum af samfélagi okkar og viðhorfum sem okkur finnst ástæða til að hæða. Og því miður bendir fátt til þess að hljómsveitin verði uppiskroppa með yrkisefni í bráð.“

Davíð Þór segir framhaldið þó óráðið. „Við tökum eitt skref í einu. Nú erum við bara að fylgja þessari plötu eftir og kynna hana.“ Þau munu meðal annars halda tónleika á Eistnaflugi í sumar og troða upp víðar á heimaslóðunum í Fjarðarbyggð. „Síðan stefnum við á tónleikahald á suðvesturhorninu í haust en þá á allt eftir að koma í ljós.

Þegar og ef við verðum komin með nóg efni á aðra plötu þá förum við að ræða það en núna er það eina sem fyrir okkur vakir að senda þessa plötu út í heiminn með allt það veganesti sem við getum gefið henni.“

Byrjaði allt með laginu Arnþrúður er full

Miklar deilur blossuðu upp í kringum plötuna áður en upptökur hófust en þær hafa fyrst og fremst snúist um harkalegar deilur milli Davíðs Þórs annars vegar og Arnþrúðar Karlsdóttur á Útvarpi Sögu hins vegar en allt ætlaði um koll að keyra snemma árs þegar fréttist af laginu Arnþrúður er full sem til stæði að gefa út á pönkplötu.

„Við stöndum í mikilli þakkarskuld við Útvarp Sögu,“ segir Davíð Þór um alla þá athygli sem Austurvígstöðvarnar hafa fengið og hversu vel þeim gekk að safna fyrir útgáfunni á Karolina Fund.

„Arnþrúður er full er fyrsta lagið sem við sömdum og það var til fljótlega eftir að þau höfðu helgað dagskrá sína því um skeið að dreifa lygum um kynferðisafbrot hælisleitanda í sundlaug á Kjalarnesi. Þá samdi ég Arnþrúður er full.“

Titillag plötunnar, Útvarp Satan, er aftur á móti yngsta lagið á plötunni og varð ekki til fyrr en að ákveðið var að breyta nafni plötunnar úr einfaldlega Austurvígstöðvarnar í Útvarp Satan.

„Við æfðum það bara upp daginn áður en við fórum í stúdíó. Bæði fannst mér plötuna vanta titillag og það vantaði eitt lag þar sem við vorum búin að gefa það út að það yrðu sextán lög.

Platan átti upphaflega að heita Austurvígstöðvarnar en þegar Ólafur Ísleifsson og Pétur Gunnlaugsson vörpuðu fram á Útvarpi Sögu spurningunni hvort búið væri að gera kirkjuna að kirkju Satans, þá svöruðum við því svona.

Sjá einnig: Vilja að biskup reki „klámklerkinn“

Ef þú ætlar að kveinka þér undan þessari nafngift þá skaltu bara gæta tungu þinnar sjálfur og þú verður bara að þola það að í þig sé hent því sama og þú hendir í aðra.“

Kristnum gildum snúið á hvolf

Gagnrýni á þá sem tala hátt gegn hælisleitendum er er stef á plötunni sem mest ber á í lögunum tveimur sem fjalla um Útvarp sögu. Davíð Þór segist hafa samið Arnþrúður er full fyrir síðustu alþingiskosningar og Útvarp Satan fyrir borgarstjórnarkosningarnar en niðurstöður kosninganna hafi slegið nokkuð á áhyggjur hans af útlendingahatri í samfélaginu.

„Þannig að sem betur fer er þetta kannski ekki eins mikil ógn og ég óttaðist þegar ég samdi þessi lög en það þýðir ekki að það þurfi ekki að halda vöku sinni.“

Íslenska þjóðfylkingin fær síðan sinn skerf í laginu Þrammið í stígvélunum. „Lagið hefst á þessum orðum: „Þau gapa um kristin gildi og Guð almáttugan, en í hinu orðinu hrópa þau síðan: Hataðu náungann“ og endar á að þeir halda að í himnaríki sé ekki pláss fyrir neina nema þá sjálfa.“

„Þótt Íslenska þjóðfylkingin hafi ekki fengið nema 120 atkvæði í síðustu kosningum þá held ég að lagið eigi meira en fullan rétt á sér. Vegna þess að hún tekur á sig ýmsar myndir og maður heyrir til dæmis þingmenn Flokks fólksins tala fyrir sjónarmiðum sem Íslenska þjóðfylkingin gæti tekið upp á arma sína.“

Þjóðfylkingarfólki og fleirum sem aðhyllast stefnu hennar er tíðrætt um kristin gildi en slíkt tal þykir séranum skjóta skökku við í því samhengi.

„Ég hef beinlínis predikað um það og bent á að okkar æðsta fyrirmynd um rétta breytni er miskunnsami Samverjinn sem hjúkrar útlendingi, sem er annarrar trúar en hann sjálfur, til heilsu. Hvernig er hægt að snúa þessu svona á hvolf eins og þetta fólk gerir?“

Hlýtur að vera pláss fyrir einn pönkara

Davíð Þór segist aðspuður vel meðvitaður um að fólk geri aðrar kröfur til presta en óvígðra en segist þó ekki verða var við mikla hneykslan á því að hann sem sóknarprestur sé pönksöngvari í hjáverkum.

„Ég verð ekki var við annað en að þetta sé bundið við lítinn en mjög háværan hóp. Þetta er þessi 150 manna hópur sem ég held að rannsóknir sýni að sé ábyrgur fyrir 90 prósentum af því sem á sér stað á athugasemdakerfi netmiðla. Það er held ég mannskapurinn sem við þurfum að hafa áhyggjur af og ég held að hópurinn sé ekki mikið stærri en þetta.

Ég held að það séu ekki ýkjur hjá mér að fyrir hvern og einn sem hefur kvartað yfir þessu hafa tíu farið á netið og stutt okkur með peningum á Karolina Fund.“

Davíð Þór segist alveg verða var við að hann stuði einhverja með pönkinu en „stéttin telur á annað hundrað manns og ef við viljum vera þjóðkirkja þá hlýtur að vera pláss fyrir einn pönkara í þeim hópi.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Davíð Þór sýnir „hugar­far dópistans“

Innlent

Út­varp Satan verður „drullu­góð“

Innlent

Vilja að biskup reki „klámklerkinn“

Auglýsing

Nýjast

Lífið

Hefur 40 mínútur til að gera sig til fyrir tón­leikana í kvöld

Lífið

Fjörug vor­há­tíð í Hóla­brekku­skóla

Menning

Hljóð­maðurinn verð­launaður í vinnunni

Lífið

Nýtt útlit - líkari Barbie en Mel B

Lífið

Lúxusíbúð í Reykjavík - 104.5 milljónir

Fólk

Vellíðan karla í fyrirrúmi

Auglýsing