Menning

„Valdið gegn hinni nöktu og við­­kvæmu mann­eskju“

Sýning Steinunnar Þórarins­dóttur hefur vakið tals­verða at­hygli í New York borg. Fjallað var um fígúrur hennar í dag­blaðinu New York Times. Hún blandar saman sínum fígúratíva heimi við brynjur og hug­myndina um „vald“.

Steinunn segir innblástur sýningarinnar Armors vera sóttan í brynjudeild Metropolitans safnsins. Ferlið var langt og strangt að hennar sögn en hugmyndina fékk hún fyrir fimm árum þegar hún bjó í borginni. Mynd/Molly Krause

Armors, sýning höggmyndlistarkonunnar Steinunnar Þórarinsdóttur í New York, hefur vakið talsverða athygli að undanförnu. New York Times gerði sýninguna til að mynda að umfjöllunarefni sínu á dögunum. Um er að ræða þrjú pör af styttum Steinunnar, og er andstæða hverrar og einnar fígúru áþreifanleg. Fréttablaðið ræddi stuttlega við Steinunni um sýninguna Armors sem sýnd er við miðaldadeild Metropolitan safnsins Cloisters, í Fort Tryon almenningsgarðinum.

Hver er hugmyndin á bak við sýninguna?

„Þetta er hugmynd sem ég er búin að vera með í vinnslu í mörg ár. Fræinu var sáð þegar ég bjó í New York fyrir fimm árum, árið 2013. Þá fór ég mikið að heimsækja Metropolitan safnið, og þá sérstaklega brynjudeild þeirra. Ég fékk þessa hugmynd, að tengja miðaldra brynjur, við minn fígúratíva myndheim,“ segir Steinunn.

Tengjum brynjur við stríð, vald og ofbeldi

Sjálf er hún fígúratívur listamaður til fjörutíu ára, eins og hún orðar það. 

„Þessi hugmynd um valdið gegn hinni nöktu, viðkvæmu manneskju er svona grunnhugmyndin að þessu. Brynjur eru fyrirbæri sem við tengjum stríði, valdi og ofbeldi. Þetta eru því í raun tvær andstæður sem ég tefli saman og þannig kviknaði hugmyndin í raun,“ segir Steinunn, en andstæðurnar, pörin, eru þrjú talsins. Brynjurnar eru mótaðar eftir þeim sem Metropolitan á og hýsir í brynjudeild safnsins. Þær eru þrjár talsins og mjög ólíkar að sögn Steinunnar. Um er að ræða brynjur frá Ítalíu, Þýskalandi og Bretlandi.

Fígúrur Steinunnar standa andspænis hvor annarri og myndast mikil orka þeirra á milli, að hennar sögn. Mynd/Azhar Kotadia

Vissi ekki hvernig útkoman yrði

„Þarna verða til miklir karakterar og síðan standa á móti þeim þessar nöktu manneskjur sem að tengjast þeim um leið.“

Ferlið var langt, strangt og flókið að sögn Steinunnar. Brynjurnar eru, sem fyrr segir, unnar eftir brynjum Metropolitan safnsins. Safnið sá um að skanna brynjurnar og láta þrívíddarprenta í Kína fyrir Steinunni.

„Þeir vija ekki láta þessar gersemar frá sér,“ segir hún, en brynjurnar eru frá miðöldum og því afar fágætar.

Fígúrurnar vann hún sjálf og lét steypa í málm í Póllandi. Segir hún að um hafi verið að ræða marga þætti sem komu síðan svona vel út að lokum. Hún hafi ekki vitað hver útkoman yrði fyrr en þær komu allar saman, andspænis hvor annarri, fyrir um mánuði síðan.

Forseti Íslands lagði leið sína í Fort Tryon garðinn að berja verk Steinunnar augum. Mynd/Malcolm Pinckney

Sonurinn fyrirmyndin að styttunum

En hver er fyrirmyndin?

„Sonur minn, Þórarinn Ingi Jónsson, hefur verið fyrirmynd mín í um það bil tuttugu ár núna. Hann stillti sér upp á vinnustofunni á svipaðan hátt og brynjurnar eru og við prentuðum út skönnunina. Þetta er því eins og bergmál af stellingu brynjanna, þessara fígúra og nöktu manneskja.“

Hún segir það hafa komið sér á óvart hversu mikil líkindi séu á meðal beggja fígúra. Önnur sé nakin en hin brynjuð.

„Þessi nakta manneskja er ekki síður sterk og það fannst mér svolítið merkilegt að sjá.“

Garðurinn er fallegur að sögn Steinunnar og hafa margir lagt leið sín að skoða verk hennar. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, gerði sér til að mynda ferð í Fort Tryon og þá hefur Emmy-, Tony- og Grammy verðlaunahafinn Lin-Manuel Miranda hrósað sýningunni í hástert. Miranda, sem er ef til vill hvað þekktastur fyrir Broadway söngleikinn Hamilton, sagði í færslu sinni á Twitter að hundur hans hafi hins vegar gelt á stytturnar og pissað nærri þeim. Ætli við tjáum okkur ekki öll með mismunandi hætti þegar kemur að list?

Sýningin stendur yfir þar til í september

„Það er gaman að sjá að fólk er að tengja við verkin. Það hefur mikið verið að taka sjálfur og skemmta sér en virðist um leið átta sig á þessari orku sem er innan hvers pars og þessara tveggja ólíku aðila,“ segir Steinunn og bætir við að fjöldi fólks hafi hafi lagt leið sína á 5th Avenue í borginni til að skoða brynjudeild Metropolitan safnsins áður en það fer í Fort Tryon garðinn til að skoða Armors.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Steinunn sýnir í New York. Árið 2011 vann hún með sömu aðilum og standa að hluta til fyrir Armors, New York City Parks, að sýningu fyrir framan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna. Þá er hún með tvær farandverkasýningar í gangi í Bandaríkjunum þessa stundina en Armors, fígúrur Steinunnar, verða til sýnis í garðinum fram í september á þessu ári.

Hægt er að lesa umfjöllun New York Times um Armors með því að smella hér.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Menning

Hljóð­maðurinn verð­launaður í vinnunni

Menning

Allt verður að einni stjörnu í Ásmundarsal

Menning

Fjallar um tengsl náttúru og manns í dansverki

Auglýsing

Nýjast

Lífið

Hefur 40 mínútur til að gera sig til fyrir tón­leikana í kvöld

Lífið

Fjörug vor­há­tíð í Hóla­brekku­skóla

Lífið

Nýtt útlit - líkari Barbie en Mel B

Lífið

Lúxusíbúð í Reykjavík - 104.5 milljónir

Fólk

Vellíðan karla í fyrirrúmi

Lífið

Fjöl­skyldu­maðurinn Cristiano Ronaldo slakar á fyrir HM

Auglýsing