Fólk

Var enginn íþróttaálfur

Íris Hrönn Kristinsdóttir, viðskiptafræðingur og fjármálastjóri Íslensku lögfræðistofunnar, lærði einkaþjálfun meðfram fullri vinnu. Hana langar að nýta námið til að þjálfa unglinga og önnum kafnar mæður sem hafa lítinn tíma fyrir leikfimi.

Íris Hrönn var að hugsa um að fara í mastersnám í skattarétti og reikningsskilum en einkaþjálfunin heillaði hana meira. Fréttablaðið/Stefán

Ég er ekki mesti íþróttaálfurinn sem til er en ég ákvað samt sem áður að læra einkaþjálfun, því það má alveg. Svo kemur bara í ljós hvað ég geri að námi loknu,“ segir Íris Hrönn Kristinsdóttir sem útskrifast sem einkaþjálfari frá Íþróttaakademíu Keilis á Ásbrú á föstudaginn.

Íris er viðskiptafræðingur að mennt og hefur um árabil starfað sem fjármálastjóri Íslensku lögfræðistofunnar. Það lá því ekki beint við að hún færi að læra einkaþjálfun. „Ég var að hugsa um að fara í mastersnám í skattarétti og reikningsskilum en einkaþjálfunin heillaði mig meira. Upphaflega var ég að spá í að sækja um inngöngu í námið sumarið 2015 en mér fannst ég ekki beint eiga heima í því þar sem ég hef ekki mikinn bakgrunn í íþróttum. Ég æfði boltaíþróttir sem barn og lyftingar og hefðbundna líkamsrækt eftir að ég varð fullorðin, aðallega til að halda mér góðri af bakverkjum. Ég sagði engum frá þessu og var viss um að fólk fengi algjört hláturskast ef það vissi af þessum draumi mínum. Ég lét því ekki verða af því. Ári síðar ræddi ég þetta við manninn minn og vinkonu mína og það varð til þess að ég ákvað að sækja um. Í versta falli kæmist ég ekki inn í námið og það væri í sjálfu sér ekkert hræðilegt. Ég hafði þá samband við Keili og komst að því að umsóknarfresturinn var liðinn. Ég sendi samt sem áður tölvupóst og var í framhaldinu kölluð í viðtal. Svo komst ég inn í skólann, mér til mikillar undrunar og ekki síður ánægju,“ rifjar Íris upp.

Ætlar að taka vinnufélagana í gegn

„Ég varð að tilkynna yfirmanni mínum að ég væri komin í nám og þyrfti að fá leyfi annan hvern föstudag. Það var auðsótt mál og ég er mjög þakklát fyrir hversu vel vinnufélagar mínir hafa stutt við bakið á mér. Það er ekki sjálfgefið að fá að stunda nám með vinnu. Ég vona að ég geti launað þetta einn daginn, kannski ég taki þau bara í einkaþjálfun,“ segir Íris brosandi.

Hún segist strax hafa fundið sig í náminu og kynnst skemmtilegu fólki. „Ég fann að ég átti vel heima þarna og námið lá vel fyrir mér. Það var góð tilfinning. Námið stóðst allar mínar væntingar og reyndist vera mjög áhugavert og ítarlegt. Mér kom mest á óvart hvað ég hef gaman af því að hjálpa öðrum og á auðvelt með að kenna. Það er gaman að fara út fyrir þægindarammann og finna nýja hlið á sjálfum sér. Slíkt eflir mann og eykur sjálfstraustið. Ég er rosalega ánægð með að hafa drifið mig í einkaþjálfarann,“ segir Íris ákveðnum rómi.

„Upphaflega var ég að spá í að sækja um inngöngu í námið sumarið 2015 en mér fannst ég ekki beint eiga heima í því þar sem ég hef ekki mikinn bakgrunn í íþróttum.“ Fréttablaðið/Stefán

Hún lærði einnig heilmikið um mataræði og næringarfræði. „Við gerðum verkefni sem snerist m.a. um að skoða nesti unglinga, morgunmat barna, hvað við setjum almennt ofan í okkur og hvernig hægt er að velja hollari kostinn. Sálfræði var líka á stundaskránni en starf einkaþjálfara byggir mikið á henni. Fólk leitar ekki endilega til einkaþjálfara bara til að gera armbeygjur og upphífingar. Það vill líka tala við einhvern og því þarf einkaþjálfari að geta gefið af sér. Sjálf hef ég oft farið til einkaþjálfara og það hefur gefið mér mikið, fyrir utan að ég hef lært heilmikið á því.“

Langar að þjálfa unglinga og mömmur

Þegar Íris er spurð hvernig hana langi til að nýta sér þessa menntun kemur í ljós að hana langar mest að hjálpa unglingum að koma sér í gott form. „Einn kennarinn þjálfar unglinga í Þorlákshöfn og hann brennur virkilega fyrir því starfi. Ég var meira að segja að spá í að keyra son minn á æfingar til hans en svo fór ég að hugsa, af hverju hjálpa ég honum ekki sjálf? Ég er búin að koma upp góðri aðstöðu í bílskúrnum hjá mér og mig langar að athuga hvort einhverjir unglingar vilji koma til mín í skúrinn að æfa. Þetta er viðkvæmur aldur og ekki allir sem vilja fara á líkamsræktarstöðvar að æfa. Dóttir vinkonu minnar bað mig líka um aðstoð við að styrkja sig og núna hefur vinkona hennar bæst í hópinn. Það krefst þolinmæði að þjálfa unglinga en það er líka mjög gefandi. Þeir þurfa öðruvísi þjálfun en fullorðnir og það er mikilvægt að kenna þeim að gera æfingarnar rétt, því þá búa þeir að því fyrir lífstíð.“

Íris hefur einnig áhuga á að þjálfa mæður sem eiga erfitt með að finna tíma í sólarhringunum til að æfa. „Það er mikið talað um að fólk eigi að forgangsraða en það getur verið erfitt í dagsins önn, ekki síst þegar fólk vinnur langan vinnudag og hefur aðeins tíma á milli kl. 4 og 8 til að sinna börnunum sínum. Þá er erfitt að finna tíma til að fara líka í leikfimi. Þegar mín börn voru yngri fór ég í íþróttafötin þegar ég kom heim og ákvað með sjálfri mér að ekkert nema leti kæmi í veg fyrir að ég færi í ræktina eftir klukkan átta á kvöldin. Mig langar að bjóða konum upp á þann valkost að æfa hjá mér eftir kvöldmat. Það er kannski ekki besti tíminn fyrir líkamsrækt en þetta er kannski eini tíminn sem margar konur hafa. Ég ætla ekki að hætta í vinnunni minni en þetta er eitthvað sem mig langar líka til að gera.“

En hvað getur fólk gert sjálft til að koma sér af stað í líkamsrækt? „Ég er búin að læra að það þarf ekki alltaf að æfa í klukkutíma á dag, sex sinnum í viku til að ná árangri. Hver hnébeygja skiptir máli. Stutt gönguferð telur líka og það skilar árangri að gera æfingar í tuttugu mínútur heima í stofunni hjá sér. Árangurinn kemur ekki strax á morgun heldur er þetta langhlaup. Það verður að hugsa þetta sem breytingu á lífsstíl. Litlir hlutir skila líka árangri og það er gott að stefna á að hreyfa sig þrisvar í viku, hálftíma í senn og allt annað er bónus.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fólk

Vellíðan karla í fyrirrúmi

Fólk

Pallurinn framlenging af stofunni

Fólk

Það er hollt að eiga gæludýr

Auglýsing

Nýjast

Lífið

Hefur 40 mínútur til að gera sig til fyrir tón­leikana í kvöld

Lífið

Fjörug vor­há­tíð í Hóla­brekku­skóla

Menning

Hljóð­maðurinn verð­launaður í vinnunni

Lífið

Nýtt útlit - líkari Barbie en Mel B

Lífið

Lúxusíbúð í Reykjavík - 104.5 milljónir

Lífið

Fjöl­skyldu­maðurinn Cristiano Ronaldo slakar á fyrir HM

Auglýsing