Innlent

Niður­staða Sam­keppnis­eftir­litsins „með öllu ó­skiljan­leg“

Finnur Árnason, forstjóri Haga.

Sú niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Fríhöfnin og verslanarisinn Hagar starfi ekki á sama markaði er með öllu óskiljanleg að mati Finns Árnasonar, forstjóra Haga. Hann skrifar í ársskýrslu félagsins, sem birt var í dag, að sterk staða sameinaðs félags Haga og Lyfju á snyrtivörumarkaði hafi verið meginástæða þess að eftirlitið ógilti samruna félaganna „þrátt fyrir að ríkið sjálft sé stærsti snyrtivörusali landsins í gegnum Fríhöfnina“.

Samkeppniseftirlitið ógilti sem kunnugt er kaup Haga á Lyfju síðasta sumar. Var það mat eftirlitsins að með kaupum sínum á Lyfju hefðu Hagar styrkt markaðsráðandi stöðu sína á dagvörumarkaði og skaðleg samþjöppun hefði orðið á þeim mörkuðum sem félögin starfa bæði á, ekki síst á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði. Breytingarnar hefðu verið til þess fallnar að skaða samkeppni, almenningi og atvinnulífi til tjóns.

Athygli vakti að Samkeppniseftirlitið mat það sem svo að verslunin í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli væri ekki hluti af markaði málsins, þótt hún veitti innlendri verslun samkeppnislegt aðhald.

Í ársskýrslu Haga bendir Finnur á að til þess að auka hagkvæmni í rekstri og styrkja grunnstoðir félagsins hafi verið gerð tilraun til þess að kaupa Lyfju. Ákvörðun eftirlitsins hafi verið mikil vonbrigði og komið á óvart. Niðurstaða eftirlitsins um að Hagar og Fríhöfnin starfi ekki á sama markaði sé með öllu óskiljanleg. Í gögnum málsins hafi enda komið fram að Fríhöfnin hafi beitt sér fyrir því að erlendur framleiðandi grípi til aðgerða og komi í veg fyrir tilboð á sínum vörum í verslunum Haga. „Það þýðir í raun að ríkisverslunin, sem nýtur sérréttinda og þarf til að mynda ekki að innheimta virðisaukaskatt af viðskiptavinum sínum, beitti sér með beinum hætti með það að markmiði að hækka verð til viðskiptavina Haga. Með aðgerðum sínum er ljóst að Fríhöfnin lítur á Haga sem keppinaut sinn,“ skrifar Finnur.

Samkeppniseftirlitið rannsakar nú tvo stóra samruna á smásölumarkaði, annars vegar kaup Haga á Olís og hins vegar kaup N1 á Festi, sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Krónunnar og ELKO. Talið er líklegt að eftirlitsstofnunin muni setja umræddum samrunum ströng skilyrði.

Finnur skrifar í ársskýrslunni að félagið eigi i sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið um úrlausn kaupanna á Olís. Í samrunanum felist mikil tækifæri samlegðar og til sóknar. 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Davíð Harðarson í stjórn Haga

Innlent

Hærra olíuverð bitnar á ferðaþjónustu

Innlent

Halli vöruviðskipta minnkar

Auglýsing

Nýjast

Markaðurinn

Gunnar Dofri ráðinn lögfræðingur Viðskiptaráðs

Markaðurinn

Ferðamönnum fjölgaði um 13% í maí

Innlent

Kostnaður við skráningu Heimavalla 155 milljónir

Innlent

EasyJet fjárfestir í Dohop

Innlent

Á eitt prósent í Heima­völlum og býður fram í stjórn

Innlent

Rafnar hættir rekstri vegna sterkrar krónu

Auglýsing