Skoðun

Góða, slæma og ljóta boxið

Góð vinkona sagði við mig um daginn: „Rúna, ég er orðin svo leið á öllum þessum fullyrðingum um að konur séu þetta eða hitt og karlar eitthvað annað.“ Svo bætti hún við: „Hvenær ætlum við að fara að hætta að fullyrða að allir séu eins, bara af því að þeir eru af sama kyni?“

Undirrituð er þessa dagana að gera rannsóknarvinnu fyrir bókina: The Stories of Boxes, the Good, the Bad and the Ugly, þar sem við skoðum boxin sem við erum annaðhvort að setja aðra eða okkur sjálf inn í, uppruna þessara boxa, tilgang þeirra og gæði. Ég er vinkonu minni hjartanlega sammála, það að setja allar konur eða alla karla inn í eitthvert fyrirfram gefið box hreinlega virkar ekki. En, við mannfólkið gerum þetta endalaust, og langoftast ómeðvitað.

Afleiðingin af þessum ómeðvituðu viðbrögðum er því miður sundrung, einmanaleiki, ótti, kvíði, leiði og jafnvel þunglyndi. Við sjáum afleiðingarnar þegar boxin opnast, samanber #MeToo og #Karlmennskan. Því meira sem ég skoða þessi sjálfvirku viðbrögð okkar mannfólksins að setja aðra (og um leið sjálfan sig) inn í einhver ósýnileg box, því betur hef ég áttað mig á því hversu miklu við getum breytt með því að vakna til meðvitundar um okkar eigin viðbrögð og dómhörku. Tökum dæmi: Í leiðtogafræðum nútímans er talað um að „gamli Excel-gæinn“ (eitt boxið) sé ekki lengur það sem þarf, og í staðinn sé kominn leiðtoginn sem er mjúkur, hlustar, hefur hluttekningu, kann að hrífa fólk með sér og svo framvegis (annað box).

Þegar ég heyrði þessa lýsingu fyrst var ég, í hreinskilni sagt, bara sammála þessari skoðun (sjálfvirk viðbrögð mín í femínistaboxinu). Þegar ég hins vegar stoppaði og skoðaði betur viðbrögð mín og hvað ég væri í raun að gera með þessari fullyrðingu, sá ég að ég var að setja nýja leiðtoga í eitt box (voða gott box), og „Excel-gæjann“ (einhverra hluta vegna í karlkyni) í annað box. Með þessum boxum var ég í raun að henda út um gluggann öllum þeim verðmætum og hæfileikum sem býr í öllu því fólki sem er fljúgandi fært í Excel. Hvaða bilun er það? Ef fólk með Excel-kunnáttu væri matur, værum við að tala um matarsóun. Í þessu tilfelli erum við að tala um enn alvarlegra mál – mannauðssóun. Við sem samfélag, þurfum bæði fólk með Excel-kunnáttu og mjúka leiðtogann til að verkefni morgundagsins gangi upp.

Að vera meðvitaður um eigin hugsanir og viðbrögð er lykillinn að breytingum til batnaðar. Án meðvitundar heldur þú áfram að dæma fólk og það oft út frá einhverri gamalli venju sem að öllum líkindum er ekki lengur að þjóna neinum jákvæðum tilgangi. Án meðvitundar um hverju þú getur breytt verður einfaldlega engin breyting.


Höfundur er stjórnendaþjálfi og FKA-félagskona. 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fastir pennar

Veiðigjöld og trúverðugleiki
Kjartan Hreinn Njálsson

Skoðun

Gleymdu börnin á Íslandi
Stefán John Stefánsson

Skoðun

Opið bréf til heilbrigðisráðherra
Anna Björnsdóttir

Auglýsing

Nýjast

Mýtur varðandi starfslok
Björn Berg Gunnarsson

Frídagar skóla fleiri en foreldra
Halldór Benjamín Þorbergsson

Renta
Davíð Þorláksson

Vöxtur og verðmæti
Guðjón S. Brjánsson

Erfðasaga óstöðugleikans
Kjartan Hreinn Njálsson

Áin er okkur kær
Guðrún Sigurjónsdóttir

Auglýsing